Færslur: 2011 Júní

30.06.2011 18:52

Hver er maðurinn á myndinni?

Lesendur síðunnar, sem sigldu á síðutogurum hér á árum áður með fisk á erlenda markaði, ættu sumir hverjir að kannast við manninn á myndinni. Síðuritara er kunnugt um nafn mannsins, en vill, ef hægt væri að fá smá bollaleggingar um hver þessi einstaklingur er?

Og þess vegna er leitað til ykkar sigldu togarasjómanna og einfaldlega spurt:

Hver er maðurinn á myndinni?                                                                              Þekktur meðal sjómanna (C) Mynd: Ingi R. Árnason

Myndin er frá árabilinu 1964-7. Meira er ekki gefið upp að sinni.

29.06.2011 06:08

Tíðarfarið norðanlands.

Síðuritari var að fjárfesta í nýrri tölvu og hefur því lítið verið viðloðandi slíka gripi á meðan á uppfærslu þeirrar nýju stóð. póstar eru því enn nokkrir ósvaraðir, meðal annars einn sem á að fara á austurlandið. Vonandi áttar sá austfirski sig á þessu við hvern er átt? Reyndi að svara viðkomandi nú í morgunsárið en eitthvað var ekki að virka sem skyldi.
En snúum okkur að síðutogurum.
--------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Veðrið hér norðanlands hefur ekki verið upp á marga fiska það sem liðið er af sumri. Sá sem þessar línur ritar heimsækir Eyjafjörðinn dag hvern og þar er fátt sem minnir á sumarið, nema ef vera kynnu skemmtiferðaskipin. Það að sjá slík skip minnir á árstíðina sem á víst að standa sem hæst nú um stundir,- með blóm í haga og allt það!

Talandi um Eyjafjörðinn að þá er bara alveg tilvalið að setja inn sólarmyndir tengdum firðinum fagra hér norðan heiða.

Efri myndin skýrir sig sjálf en þar er einfaldlega verið "að taka stöðuna"- svona aðeins verið að gá til veðurs. Enda tíðarfarið þannig að full þörf að gá til veðurs. Myndin er tekin um borð í eyfirskum togara.                                                                         Eyfirsk sólarmynd (C) Mynd: Lárus Halldórsson

---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Það er oft fallegt sólarlagið þegar siglt er inn eða út Eyjafjörðinn á fögru sumarkvöldi. Við skulum því skoða hér aðra sólarmynd sem einnig er norðlensk. Eyfirsk.                                                                            Siglt móti sólu (C) Mynd: Benedikt Brynjólfsson

25.06.2011 17:56

Er nokkur vafi um skipsgerðina?

Velkist nokkur lesandi í vafa um hverslags skip er hér um að ræða?                                                                       Starfsmenn eldhúss (C) Mynd: Lúðvík Fanning.

Árið 1957, í ársbyrjun, kom hingað til landsins fyrsti síðutogarinn af 8 sem smíðaðir voru á árunum 1957-60. Um borð í þessum fyrsta síðutogara var innangegnt úr afturskipi og upp í brú skipsins. Skipið var b.v Gerpir NK 106 frá Neskaupstað.

Mennirnir á myndinni hér að ofan eru úr eldhúsinu á sínu skipi og hér gildir sú regla að fara upp á keisinn og fram eftir með aðföng til brúarstarfsmanna. Viðrar vissulega vel að þessu sinni og gott að komast aðeins út frá mollunni í eldhúsinu. Myndin hér að ofan er tekin á svipuðum tíma og fyrstu skipin með ganga innandyra hófu að koma sem nýsmíðar.

Takið lesendur eftir katlinum sem matsveinninn heldur á. Hann er öllu veigameiri ketillinn sem sjá má á mynd hér neðar á síðunni frá breska togaranum, með ensk íslensku áhöfninni,- en sá ketill er reyndar ætlaður fleirum en körlunum í brúnni.

24.06.2011 05:46

Hundar um borð í togurum.


Hann er ekki alveg með þetta á hreinu blessaður hvolpurinn sem hér er að taka sín fyrstu skref um borð í botnvörpungi. Togarinn er b.v Hallveig Fróðadóttir RE. Hvuttinn var munstraður á "Veiguna" árið 1966, en það er sama árið og Bobby, hundurinn á b.v Ask RE fluttist yfir á b.v Sigurð RE,- ásamt með áhöfn Asks þegar Arinbjörn Sigurðsson, skipstjóri, tók Sigurð eftir að Ask var lagt upp.

Við munum skoða það síðar hvernig Bobby forframaðist við það að flytjast af Aski 650 tonna togara yfir á einn 1000 tonna. Já, Bobby "kunni sko að vera á togara!"                                                            Umheimurinn skoðaður (C) Mynd: William Jóhannsson

Það mun hafa verið haft á orði hér á annari skipasíðu í vor, að tréverk á brúarvængjum togaranna hefði verið eitthvað meira á þeim skipum er höfðu rekkverk, en þeirra er höfðu þil. Ekki er nú víst að það sé alveg kórrétt þar sem myndir sýna einungis tré í gólfum brúarvængja, auk þess sem tré er ofan á hvort heldur er rekkverk eða þil.

23.06.2011 06:06

Gátan að þessu sinni er...

Einhverjir af gestum síðunnar vilja sjá hér gátur í sambandi við myndbirtingar. 

Hér kemur því mynd frá árunum upp úr 1950 og spurningin er einföld: Hvar er myndin að þessu sinni tekin?                              Unnið við bryggju (C) Mynd: Sæmundur Sigurðsson

Hann er að búa sig undir að fara heim þessi maður á myndinni. Því þrátt fyrir að vera togarasjómaður og greinilega í vinnunni, að þá er verið að vinna við skipið í heimahöfn þess. Hann getur því sofið heima að afloknum vinnudegi eins og landverkafólkið. Kærkomin tilbreyting í því.
---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------


                                                               Hér er svarið við gátu (C) Mynd: Ragnar Franzson

Myndin að þessu sinni er hluti af stærri mynd er sýnir skipið allt. Þekkt mynd af togaranum, en þetta er gert á þennan máta svo betra sé að átta sig á hlutum á framskipi togarans. Pokabóman bb.megin ekki í notkun á þessun tíma. Hvers vegna??

21.06.2011 05:42

B.v Ísborg ÍS 250 nýsmíðuð.

Góð vísa er aldrei of oft kveðin og því verður þessi mynd sem nú birtist ykkur lesendum, birt öðru sinni. Myndin sýnir hér b.v Ísborg ÍS 250 frá Ísafirði nýsmíðaða úti í Hull í Englandi í apríllok árið 1948. Bakkaskip. Hér er farið að kynda ketillinn fyrsta sinni og allt að verða klárt til heimsiglingar.

Skipið er eitt af fimm skipum af styttri gerð svokallaðra Beverley-skipa, nýsköpunarskipa sem smíðuð voru eftir lok seinni heimstyrjaldar fyrir Íslendinga. Og grái liturinn er hér notaður á skrokk skipsins. Myndin í síðustu færslu sýnir einungis stefni á grámáluðu bakkaskipi en hér er sem sagt "heilt" skip á mynd.                                                   Kynt undir katlinum (C) Mynd: Guðbjartur Finnbjörnsson

Myndir af grámáluðum Beverley-smíðuðum nýsköpunartogurum, eða öðrum nýsköpunartogurum í sama lit smíðuðum annars staðar, eru ekki margar á "lagernum" sem leyfi er fyrir birtingu á þannig að stundum þarf að sýna einhverjar myndir öðru sinni, ef einhver umræða skapast sem gefur tilefni til slíks.
Vil benda á mynd af afturskipi b.v Röðuls GK hér neðar á síðunni en þar má einnig sjá Beverley-smíðað skip, en þá með bátapall sem ekki er til staðar hér á myndinni af b.v Ísborg Ís. Bátapallurinn kom reyndar síðar á Ísborgina.
B.v Fylkir RE sem hér er í síðustu færslu er einnig frá sömu smíðastöð og Ísborg og Röðull.

20.06.2011 06:01

Grámálað bakkaskip.

Síðutogarar eru ýmist smíðaðir sem svokölluð hvalbaksskip eða bakkaskip.

Í áliti hér á síðunni barst í tal litaval á skrokkum nýsköpunartogaranna okkar á sínum tíma. Sitt sýnist hverjum um liti þannig að lengi má "deila" um hvað sé fallegt og hvað ekki. Lögun hlutar eða form skiptir þar eflaust máli þegar kemur að litavali og svo er bara smekkur fólks ærið misjafnt þegar kemur að fegurðarmati hvers og eins.

Að þessu sinni birtist ykkur lesendum mynd af svokölluðu bakkaskipi, grámáluðu og lesendur dæma um það hver fyrir sig hvað viðkomandi finnst um gráan lit á þess konar skipslagi sem hér má sjá.                                                                 Haldið í siglingu (C) Mynd: Aðalsteinn Finsen

Lengst til vinstri má sjá í bræðsluskipið "Hæringur" en það skip bættist í flota Íslendinga árið 1948 eða sama ár og b.v Fylkir RE 161. Það er engu líkara en að b.v Fylkir RE sé hér með hliðarskrúfu að framan, en slíkan búnað höfðu skipstjórnarmenn ekki á þessum árum. Ein skrúfa látin nægja.
                                                                                        

19.06.2011 05:46

Kvennadagurinn 19. júní.

Á kvennadeginum 19.júní er ekki stætt á öðru en að sýna eitthvað af kvenfólki hér á síðunni. Þá þyrfti í leiðinni að vera mögulegt að bendla viðkomandi myndefni við síðutogara. Hvað annað?
Og það tókst vissulega að þessu sinni.
----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Hér birtist ykkur lesendum mynd sem tekin er um borð í b.v Bjarna riddara GK 1 frá Hafnarfirði. Myndin er tekin einhvern tíma um eða upp úr 1950. Þær eru býsna margar konurnar að þessu sinni sem hafa brugðið sér með bóndanum út fyrir landssteinanna. 
Þarna sitja þær prúðbúnar með harmonikku-leikarann hjá sér aftur í stb.ganginum á "riddaranum."

Já, togarasjómenn hafa löngum heillað kvenþjóðina.

Konur, til hamingju með daginn 19.júní!                                                 Hlýtt á fagra tóna (C) Mynd: Börn Halldórs Baldvinssonar

Korkflekarnir er fylgdu skipunum nýjum voru hér til umfjöllunar um daginn. Hér á myndinni má sjá hvar einum slíkum er brugðið undir trébjörgunarbátinn. B.v Bjarni riddari GK 1 var með korkflekana í reiða afturmasturs við komuna til Hafnafjarðar sem nýsmíði. Seinna meir voru flekarnir hafðir undir björgunarbátunum, en undir lokin var einn fleki hafður til taks aftur á hekki skipsins. Meiningin að sleppa flekanum aftur af skipinu, ef með þurfti.

18.06.2011 06:16

Gömlu togarajaxlarnir hittast.

Nú um þessa helgi eru réttar 4 vikur þar til "gömlu" togarajaxlarnir ætla að hittast og rifja upp liðna tíð á síðutogurunum hér forðum daga.

Er þetta í annað sinn sem slíkt er gert, en fyrir ári síðan hittist stór hópur manna ásamt með mökum á Akureyri og áttu saman notalegar stundir. Þótti þetta hafa tekist vel og var því fljótlega farið að ræða þann möguleika að halda slíkan "hitting" strax að ári. Margir munu hafa misst af samkomunni í fyrra þar sem fólk hreinlega vissi ekki af uppákomunni.
Var hrein unun að standa til hliðar við hópinn þegar hann var saman kominn fyrsta sinni og verða vitni að því þegar gamlir skipsfélagar fóru að gefa hvorir öðrum auga. "Bíddu á ég ekki að þekkja þennan svip?" - "Hver ert þú nú aftur - ég kannast við andlitið!"
Sumir hverjir voru hálffeimnir að "gefa sig" að öðrum því þeir höfðu ekki sést í marga áratugi einhverjir þeirra.


Með þessum línum hér er ætlunin að minna menn (og konur) á samkomuna í sumar og endilega þið sem vitið af "gömlum" togarajöxlum, sem ekki "liggja" í tölvunni alla daga, að láta viðkomandi vita.
Að þessu sinni verður hópnum haldið meira "saman" en raunin varð á í fyrra og málin án efa rædd betur nú en þá. "Feimnin" yfirstaðin hjá körlunum gagnvart því að hittast að nýju, eftir öll þessi ár.

Sjá má auglýsingu varðandi samkomuna hér efst í hægra horni síðunnar með því að smella á hana.                                                              Létt sveifla um borð (C) Mynd: Haraldur Jónsson

Þrátt fyrir að aldurinn sé farinn að færast yfir suma menn að þá munu þeir eflaust einhverjir taka létta sveiflu í sumar, ef að líkum lætur. Jafnframt verður einhver matur á borðum líkur þeim er hér má sjá á aðgerðarborðinu á myndinni. Máski gufusoðinn, enda síðutogarakarlarnir vanir gufunni. Sjá mynd.
----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Sjómenn Íslands voru þekktir dansherrar í hafnarborgum erlendis hér á árum áður og fór gott orð af þeim fyrir góðan dansstíl á gólfum skemmtistaða, s.s. knæpa. Margur sjómaðurinn kannast reyndar lítt við að geta eitthvað í dansi. Enda minnast fæstir þess að hafa nokkurn tíma stígið dans á erlendri grund, hvernig sem á því stendur,- en það er nú allt önnur saga.                                                         Segir til sín söngvatnið (C) Mynd: Haraldur Jónsson

Oft er það nú svo að best er að sitja bara með sínum félögum til borðs og vera ekkert "að brölta þetta" á dansgólfinu, sem sumir sækja svo mjög í að gera. Tónlistin þarf heldur ekkert að vera merkileg því að oft er nú tappi tekinn úr "bokku" og þá segir söngvatnið fljótt til sín. Geta þá hinir ólíklegustu menn tekið upp á því að "syngja" - ef söng skyldi kalla á stundum? Já, já.

17.06.2011 06:12

Jón forseti og S.V.F.Í.

Þjóðin fagnar í dag, 17.júní, 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar. Í daglegu tali nefndur "Jón forseti."
--------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Farkostum ýmiskonar, flugvélum jafnt sem skipum, eru oft gefin nöfn þjóðþekktra einstaklinga.

Eitt er það nafnið sem nokkur skip hafa borið hér innanlands, en það er nafn Jóns Sigurðssonar, fyrsta forseta Íslands, sem þá er oftast nefndur "Jón forseti" á viðkomandi fleyi.

Myndin hér að neðan er einmitt af einu þeirra skipa sem borið hafa nafnið "Jón forseti" og er togarinn á myndinni annar í röð togara er borið hafa fyrrnefnt nafn. Skipið á myndinni er smíðað árið 1948 eða réttum 20 árum eftir að forveri þess með sama nafni fórst við Stafnes árið 1928.

Hún er velþekkt myndin sem birtist hér að þessu sinni, en ástæða þess að þessi tiltekna mynd varð fyrir valinu,- er einföld: Það er sjánlegt annað skip á myndinni. Og hvert er svo skipið sem þarna má sjá? - Jú, þarna er um að ræða v.s Þór sem smíðað var árið 1951, eða fyrir 60 árum síðan.
Og v.s Þór kemur við sögu í næstu myndbirtingu þar sem tengd verða saman slysavarnir og nafnið "Jón forseti."


                             
                                                         Jón forseti RE 108 (C) Úr safni Jóhanns Sveinssonar

Togarinn á myndinni var seldur úr landi árið 1966, eða fyrir réttum 45 árum síðan. Og þeir eiga það sammerkt báðir togararnir er báru nafnið "Jón forseti" RE 108 - að hvorugur þeirra þeytti eimpípu sína sem kveðjuflaut á sínum tíma. Skipin sem sagt "kvöddu" aldrei höfuðstaðinn, heimahöfnina formlega. Sá fyrri fórst sem kunnugt er í veiðiferð og seinni togarinn hélt í hefðbundna veiðiför og í framhaldinu var siglt með aflann til Englands. Þar er skipið svo selt öllum að óvörum þannig að skipið lá aldrei í höfn í einhverju reiðileysi, eins og sumir togaranna gerðu. Beið ekki örlaga sinna í þanghafinu. Togarinn einfaldlega hvarf sjónum manna á Íslandi einn góðan veðurdag. Bara horfinn rétt sí svona. Farinn!
----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Strand togarans "Jón forseti" RE 108 við Stafnes árið 1928, varð kveikjan að stofnun Slysavarnafélags Íslands, S.V.F.Í. Og fljótlega eftir stofnun S.V.F.Í. var farið að huga að kaupum á björgunarbát fyrir hið nýstofnaða félag. Á 10 ára afmæli Slysavarnafélagsins árið 1938 var svo smíðuð björgunarskúta er hlaut nafnið "Sæbjörg."

Á efri myndinni hér að þessu sinni má sjá í varðskipið Þór, en það er einmitt sama skipið og hér prýðir neðri myndina. Varðskipið er komið í þjónustu Slysavarnafélagsins þegar hér er komið sögu og notað sem skólaskip fyrir sjómenn. Og ber að sjálfsögðu nafnið "Sæbjörg."

Á  200 ára afmælisdegi Jóns Sigurðssonar, forseta Íslands, fer ágætlega á því að birta mynd af togara sem bar nafn hans og þá í framhaldinu að sýna mynd af skólaskipi S.V.F.Í. Því svo mjög eru þau samofin nöfnin: "Jón forseti" og Slysavarnafélag Íslands, allt frá árinu 1928.                                                             Skólaskip S.V.F.Í. (C) Mynd: Hafliði Óskarsson

Fyrsta mynd hér á síðunni af skipi, sem ekki er eiginlegur togari sýnir fyrrum varðskipið Þór. Og fyrsta varðskip í eigu Ríkissjóðs Íslands hét því sama nafni í 15 ár, eða frá 1931, - fyrir réttum 80 árum síðan - til ársins 1946.
Vissulega er varðskipið Þór á myndinni með sömu "línur" í skrokk og hefðbundinn síðutogari.

Gleðilega þjóðhátíð.

16.06.2011 06:03

B.v Úranus RE 343.

Pokabómur á b.v Úranusi RE 343 voru hér til umfjöllunar í áliti fyrir nokkrum dögum síðan.
Myndin að þessu sinni sýnir glöggt hversu ofarlega pokabómur voru í formastri á Úranusi RE. Og eflaust taka glöggir lesendur eftir staðsetningu á pólkompásnum framanvert á brúarhúsi.
Það var vel þekkt að sjá seglyfirbreiðslur (gráar eða grænar) yfir kompási á þaki stýrishúsa hér á árum áður. Þar var b.v Úranus reyndar undantekning. Og b.v Nerptúnus einnig nokkur hin síðari árin.                                                             Augljós sérkenni (C) Mynd: Ragnar Franzson

Breskir eru með alla litasamsetningu í reykháfum togaraflota síns á hreinu. Og liti í merkjum útgerða. Hér á myndinni að ofan má glögglega sjá liti á reykháf Úranuss RE, en gaman væri að geta safnað saman uppl. um rétta liti á reykháfum togaranna okkar,- auk litasamsetningar í hverju merki útgerðarfélags fyrir sig. Merkið á reykháfnum hér að ofan þarf svo sem ekki að kynna mikið til sögunnar, né litasamsetningu þess. Á morgun, 17.júní verður samskonar "merki" flaggað um land allt.

15.06.2011 05:46

Að vera trúir sínum.

Að þessu sinni verður lítið skrifað og í rauninni er fátt um þessa mynd að segja, nema ef ske kynni að einhver lesandinn sjái eitthvað markvert á myndinni?
Í það minnsta að þá er hér smá leikur í gangi og nú er bara að sjá hvernig athyglin er hjá ykkur. Það verður nefnilega birt samskonar mynd aftur, - hér neðan við þessa mynd - en þá lítið eitt öðruvísi en sú sem hér sést.
Í rauninni þarf því að bíða næstu myndar, þótt um sé að ræða sömu útgáfu. Og þá ætti einnig að verða ljóst hvaðan fyrirsögnin við myndbirtingu er fengin. En, þetta skýrist allt!                                                                   
                                                       Stímað á miðin (C) Mynd: Ljósm. ókunnur 

                                                                  

12.06.2011 04:27

B.v Jón Þorláksson RE mikið breyttur.

Í síðustu færslu er fjallað eilítið um systurskipin b.v Hallveigu Fróðadóttur RE 203 og b.v Jón Þorláksson RE 204. Þar er verið að fjalla um ýmis atriði tengdum afturskipi beggja togaranna.
Nú skulum við aðeins "renna yfir það" sem snöggvast:

Myndin af Hallveigu Fróðadóttur í síðustu færslu sýnir ekki merki útgerðar á reykháf, enda nefnt í texta hvar merkið er staðsett. Hér á myndinni má hins vegar sjá merkið á "sínum stað".
Brúarvængur á Hallveigu Fróðadóttur í síðustu færslu sýnir þil með hálfgerðum "lensportum" neðanvert á þili. Hér á myndinni má hins vegar sjá rekkverk í stað þils með "lensportum."
Á bátadekki Hallveigar Fróðadóttur í síðustu færslu, má sjá ansi fínt mastur, stórt og fagurt. Hér á myndinni má hins vegar sjá að mastur hefur verið tekið af bátadekki og annað veigaminna staðsett framan við reykháfinn.
Á myndinni af Hallveigu Fróðadóttur í síðustu færslu má sjá hefðbundnar bátadavíður. Hér á myndinni má hins vegar sjá að bátadavíðurnar eru farnar og í stað stórra trébáta er komin stór flekalaga tuðra.
Á myndinni af Hallveigu Fróðadóttur í síðustu færslu má sjá, að neðan á bátapalli eru fjórar stoðir og eru bilin þrjú á milli þeirra, með svipuðu ummáli. Hér á myndinni hins vegar, má líka sjá fjórar stoðir undir bátapalli,- en hér bregður svo við að bilin þrjú á milli stoðanna fjögurra eru ekki með samskonar ummáli og sjá má á myndinni af Hallveigu Fróðadóttur.

Enda er skipið hér á myndinni alls ekki Hallveig Fróðadóttir, heldur b.v Jón Þorláksson systurskip Hallveigar. Og ef bornar eru saman myndirnar af systurskipunum má vel sjá að bilið frá hekk-yfirbyggingu og fram í öftustu stoð undir bátapalli er ekki það sama á báðum skipum.
Einhvern daginn þarf svo aðeins að ræða slingubrettin á þessum skipum. Þar má finna eitthvað athyglisvert og jafnvel skondið umræðuefni.                                                        Mikið breytt útlit (C) Mynd: Ljósm. ókunnur.

Á einhverjum tímapunkti undir lok útgerðar b.v Hallveigar Fróðadóttur RE, var ein stoðin undir bátapalli fjarlægð en þó hélt skipið sínu "sérkenni." - að sjálfsögðu.
Þegar horft er á "formið" í línum á skrokknum aftanverðum, með því sjónarhorni sem hér er á mynd, örlar dálítið á þýskum áhrifum. Díselskipin, nýsköpunarskipin, voru með allt annað byggingarlag en gufuskipin. Meira í ætt við þýskt byggingarlag, eða svo þykir síðuritara um það efni.

11.06.2011 06:10

Sérkenni b.v Hallveigar Fróðadóttur RE 203.

Í færslu hér fyrr í vikunni er getið um sérkenni á systurskipunum Hallveigu Fróðadóttur RE 203 og Jóni Þorlákssyni RE 204. Hér á myndinni að neðan má glöggt sjá stoðirnar undir bátapallinum. Staðsetning á stoðum var ekki sú sama á systurskipunum. Fremstu 3 stoðirnar voru eins staðsettar á báðum skipunum, en aftasta stoð var talsvert aftar á Jóni Þorlákssyni heldur en hér má sjá. Bilin þrjú á milli stoðanna fjögurra á Hallveigu Fróða voru því öll jöfn að ummáli.  En, á Jóni Þorlákssyni aftur á móti, var aftasta bilið, milli þriðju og fjórðu stoðar, talsvert meira um sig en þau jöfnu bil sem sjá má hér á myndinni. Skilst þetta?

Greinilega er lifrarbræðslan staðsett aftur á skut um borð í þessum togara. Og svo tekur eflaust einhver lesandinn eftir því að ekkert er útgerðarmerkið á reykháf togarans. Díselskipin þrjú í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur, B.Ú.R, voru með merki útgerðar á aftanverðu brúarþili.

Að endingu má svo benda á afturmastur b.v Hallveigar Fróðadóttur. Mastrið á báðum systurskipunum, Hallveigu og Jóni Þorlákss. var á sínum tíma tekið af og öllu veigaminna og léttara mastur sett á brúarþakið aftanvert, framan við reykháf. Eflaust er hægt að bendla þá breytingu við ísingarhættu, nú eða sökum þess að togararnir ultu talsvert. Þeir sem muna togarana  minnast eflaust flestir masturs á brúarþaki, svo langt er um liðið frá breytingunum, eða um hálf öld.                                                 Upphaflegt útlit skipsins (C) Mynd: Jakob Hermannsson

Myndin er mjög líklega tekin á árabilinu þetta c.a. 1957-60. Gúmbjörgunarbátar voru lögleiddir um borð í skipum sömu stærðar og b.v Hallveig Fróðadóttir RE, árið 1957. Á brúarþaki má sjá tvö hylki utan um gúmbjörgunarbáta. Og brúarvængurinn er ennþá "lokaður" þ.e. með þili og hálfgerðum "lensportum" í þilinu. Brúarvængurinn var "opnaður" á öllum þremur díseltogurum B.Ú.R. fljótlega eftir hið svokallaða Nýfundnalandsveður í ársbyrjun 1959.

Á myndinni má vel sjá hvernig reykháfur er "felldur" inn í yfirbygginguna. Það segir okkur að skipið á myndinni sé það sem kallað er díseltogari. Og þá með það sem kallast skorsteinshús. Gufutogarar svokallaðir, smíðaðir á sama tíma og Hallveig Fróðadóttir voru með frístandandi reykháf. Ókunnugir geta því séð hvort um er að ræða díselskip eða gufuskip þegar reykháfur er sýnilegur á mynd.

10.06.2011 06:11

Sjómannablaðið Víkingur.

Fjöldi þeirra tímarita sem gefin eru út hér á landi er mikill. Æði misjafnt er þó hversu mikið fer fyrir þessum tímaritum í hillum verslana. Sum ritin fáséð og hér er ætlunin að minna lesendur síðunnar á eitt slíkt:

Varla þarf að kynna til sögunnar tímaritið "Víkingur" fyrir lesendum því nokkuð er víst að þið,- flest hver hið minnsta, kannist við nafnið á blaðinu. Mörg ykkar hafið eflaust lesið tímaritið hér í eina tíð.

Og þar sem blaðið Víkingur er eins og fyrr segir, ekki í hillum verslana svona alla jafna að þá telja eflaust einhverjir að blaðið sé ekki lengur gefið út. En, það er nú alls ekki svo og blaðið er við "hestaheilsu" og efnismikið. Við skulum aðeins líta á innihald nýjasta tölublaðs þ.e. 2.tbl.2011.

Meðal efnir í blaðinu er þetta:
Þórður Eiríksson fer útbyrðis í brjáluðu veðri - Gísli Jónsson skipstjóri segir frá - Lögmenn eru þurrir og leiðinlegir, segir almannarómur. En er það svo?  Er Jónas Haraldsson kannski leyniskytta í frítíma sínum - og leiðinlegur?  Eða með hnyttnari mönnum þessa lands? - Ragnar Franzson lendir í tveimur ásiglingum í sama túrnum. - Loftskeytamaðurinn Birgir Aðalsteinsson rifjar upp jólin 1959 er hann sigldi með Kötlu. - "Menn göntuðust með öryggismálin" segja þeir bræður Benedikt og Haukur Brynjólfssynir í viðtali við Ólaf Grím Björnsson. - Hverjir voru pólsku togararnir og hvar eru þeir í dag? Helgi Laxdal segir okkur allt um þessa sjömenninga. - Dauðinn í dumbshafi, hrollvekjandi saga íshafsskipalestanna. Magnús Þór Hafsteinsson skrifar. - Árni Bjarnason fer í siglingu. - Ólafur Ragnarsson rifjar upp daginn voðalega 1952. - Þeir eru ekki margir á lífi í dag sem upplifðu Pourquoi Pas? slysið. Þorsteinn Jónatansson er einn þeirra. - Matti Björns sigldi með Carlsen í stað þess að fara hina örlagaríku ferð með Dettifossi árið 1945. - Hilmar Snorrason skyggnist út í heim. - Saga af sjónum, Helgi Laxdal ríður á vaðið. - Frívaktin er helguð hinni stórskemmtilegu bók sögu útvegsmannafélags Vestmannaeyja 1920-2010. - Hilmar Snorrason fer á netið og finnur meðal annars allar árbækur Slysavarnafélags Íslands og Landsbjargar. - Feðgarnir þórbjörn Ásgeirsson, forstjóri Gjögurs H/f  og sonur hans Guðmundur fara í afdrifaríka ökuferð. - Krossgáta og úrslit í páskagetrauninni og ljósmyndakeppni sjómanna 2011.
                                              Sjómannablaðið Víkingur 2.tbl.2011

Sjómannablaðið Víkingur er gefið út í fjórum eintökum ár hvert og kostar, ef keypt er í áskrift einungis 3000 krónur. Það gera því 750 krónur blaðið. Heimsending innifalin.
Fyrir þá sem vilja nálgast blaðið er hér bent á ritstjórann, Jón Hjaltason og síminn hjá Jóni er: 862-6515.  Og netfangið: jonhjalta@simnet.is 
Flettingar í dag: 447
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 382
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 1308140
Samtals gestir: 308814
Tölur uppfærðar: 30.5.2016 12:12:18